Fé framundan

Tímavirði peninga

 

Til hamingju!

Þú hefur unnið peningaverðlaun. Þú getur valið um að fá annaðhvort 10.000 krónur í dag eða sömu upphæð eftir tvö ár. Hvort myndirðu velja? Flestir myndu velja að fá peningana strax. En af hverju ætli það sé?

Til hamingju! Þú hefur unnið peningaverðlaun. Þú getur valið um að fá annaðhvort 10.000 krónur í dag eða sömu upphæð eftir tvö ár.

Hvort myndirðu velja?

Flestir myndu velja að fá peningana strax. En af hverju ætli það sé? Peningarnir munu líta eins út eftir tvö ár, tveir fimmþúsundkallar. En þó seðlarnir séu þeir sömu er gildi þeirra ekki það sama þar sem þú getur áunnið þér vexti yfir tímabilið. Því má segja að peningarnir eftir ár séu því jafngildir 10.000 krónum, auk þeirra vaxta sem þeir geta áunnið þér. Séu vextir 5% er gildi peninganna 10.500 krónur eftir eitt ár og 11.025 krónur eftir tvö ár. Þannig eru 11.025 krónur sem þú fengir eftir 2 ár því 10.000 króna virði í dag.

Ef þér yrði boðið að fá annað hvort 10.000 krónur í dag eða 11.000 krónur eftir tvö ár er því samkvæmt ofangreindu örlítið hagstæðara að velja að fá vinninginn greiddan í dag.

Mikið hefur verið fjallað um að fólk geti greitt inn á höfuðstól lána og sparnaður vegna þess reiknaður út, stundum án þess að gera ráð fyrir tímavirði peninga. Ef þú greiðir 10.000 krónur inn á lán sem ber 5% vexti og er til 25 ára er stundum sagt að „sparnaðurinn“ séu tæpar 34.000 krónur. Þó er það í besta falli mikil einföldun. Eigirðu kost á 5% ávöxtun sparifjár og leggir sömu upphæð sparireikning muntu eiga sömu upphæð eftir sama tímabil. Því má segja að gildi 34.000 króna sem við eignumst eftir 25 ár sé 10.000 krónur í dag.

Þetta sýnir okkur bókstaflega að tími eru peningar. Virði peninga sem þú átt í dag er ekki það sama og virði peninga sem þú munt eignast í framtíðinni. Það er því afar mikilvægt að gera ráð fyrir tímavirði peninga svo þú getir reiknað út sparnað eða ávöxtun af fjárfestingum sem þér er boðin og þannig látið peningana vinna fyrir þig.

Greinin birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 8. apríl, 2010