Breki Karlsson, forstöðumaður

Breki Karlsson er forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi. Hann er með M.Sc. í hagfræði og alþjóðaviðskiptum frá Copenhagen Business School og B.Sc í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur stundað rannsóknir á fjármálalæsi og haldið ótal fyrirlestra og námskeið á Íslandi og erlendis frá árinu 2005.

breki@fe.is 

Pétur Blöndal, stjórnarformaður

Pétur Blöndal er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda. Hann var blaðamaður með hléum á Morgunblaðinu frá 1995-2013 og meðal annars ritstjórnarfulltrúi, yfirmaður menningardeildar og ritstjóri Sunnudagsmoggans. Þá stýrði hann kynningarmálum og fjárfestatengslum Íslandsbanka á árunum 2004-2005 og almannatengslaskrifstofu á auglýsingastofunni Góðu fólki frá 2001-2002. Hann situr í stjórn Forlagsins og var lengi stundakennari við meistaranám í fjölmiðlun við Háskóla Ísland. Hann hefur skrifað fjórar bækur um margvísleg efni. Pétur útskrifaðist með MBA frá Háskólanum í Reykjavík og BA í heimspeki frá Háskóla Íslands.

Stofnun um fjármálalæsi beitir sér fyrir bættu fjármálalæsi íslensku þjóðarinnar.

 

Fjármálalæsi miðar að því að almenningur nái betri tökum á eigin fjármálum og tryggi fjárhagslegan stöðugleika í lífi sínu og fjölskyldna sinna. Með bættu fjármálalæsi hefur fólk tækifæri til að móta fjárhagslega framtíð sína út frá því efnahagsumhverfi sem það býr við.

Það stuðlar einnig að gagnrýninni og upplýstri umræðu og ýtir undir fyrirhyggju í fjármálum. Þannig er ekki aðeins lagður grunnur að meiri lífsgæðum, heldur einnig stuðlað að ábyrgara og heilbrigðara samfélagi.

Markmið Stofnunar um fjármálalæsi er að Íslendingar:

  • geti tekið upplýstar ákvarðanir er varða efnahagslega velferð sína og hugsað fyrir ólíkum þörfum eftir æviskeiðum.
  • verði meðvitaðir um árangursríkar leiðir í stjórnun eigin fjármála og sníði sér stakk eftir vexti.
  • hafi ástæðu til að vera ánægðir með fjárhagslegar ákvarðanir sínar og dragi þannig úr fjárhagsáhyggjum.
  • búi í haginn fyrir efnahagslega velferð sína og þar með lífshamingju.

Þjóðarátak um fjármálalæsi
Stofnun um fjármálalæsi stendur fyrir þjóðarátaki um bætt fjármálalæsi og vinnur að útbreiðslu þess á þremur sviðum:

Vettvangur umræðu og athafna
Stofnun um fjármálalæsi er vettvangur umræðu og athafna allra þeirra sem hafa hag að eflingu fjármálalæsis, svo sem menntakerfisins, viðskiptalífsins, stofnana og samtaka. Reynsla og þekking, samhliða tengslum við erlendar stofnanir á sviði fjármálalæsis, verða nýtt til eflingar fjármálalæsis Íslendinga.

Menntun
Stofnun um fjármálalæsi heldur ráðstefnur og námskeið um fjármálalæsi, auk þess að veita ráðgjöf og sinna kennslu. Stofnunin þróar og gefur út kennsluefni um fjármálalæsi fyrir skóla og almenning, þar sem markmiðið er að enginn útskrifist án þess að vera fjármálæs eins og hæfir sínum aldri.

Fyrsta skref í átt að því markmiði er að beita sér fyrir auknu vægi fjármálalæsis í skólum. Bókin Ferð til fjár - leiðarvísir í fjármálum fyrir ungt fólk sem gefin var út haustið 2010 er nú kennd í framhaldsskólum um allt land og þróun námsefnis fyrir almenning stendur nú yfir.

Rannsóknir
Stofnun um fjármálalæsi hefur frumkvæði að og umsjón með rannsóknum sem tengjast fjármálalæsi, bæði hér á landi og í samstarfi við erlenda háskóla. Stofnunin aflar sérþekkingar með söfnun og úrvinnslu upplýsinga um fjármálalæsi, þar með talið fræðsluefnis og rannsókna.