Bók & sjónvarpsþættir
« Útgjöld eftir tekjufjórðungum | Main | Kunna 15 ára nemendur að fara með fé? »
Friday
Sep262014

Bókvitið, askarnir og ísskáparnir

Í kjölfar umræðu um fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram á dögunum hafa bækur, matur og raftæki verið í deiglunni og sýnist sitt hverjum. Til gamans er því tilvalið að skoða neysluþróun Meniganotenda á þessum tilteknu vöruflokkum.

Bækur
Á árinu 2013 dróst verslun Meniganotenda í hefðbundnum bókabúðum (netverslun er hér undanskilin) saman um 16% frá árinu áður miðað við fast verðlag. Sé litið til notkunar debetkorta sést að heildarvelta þeirra minnkaði um 28% á sama tíma.

Fyrstu átta mánuði þessa árs hefur verslun Meniganotenda dregist saman um 8% borið saman við sama tímabil í fyrra. Sé verslunin í  hins vegar borin saman fyrstu 8 mánuði 2012 er samdrátturinn 23% og samdráttur í notkun debetkorta 39%.

Árið 2012 var hlutfall kreditkorta í veltu bókaverslunar 55% samanborið við 62% árið 2013. Fyrstu átta mánuði þessa árs er hlutfall kreditkorta í bókaverslunum komið uppí 63%.

Það má því með sanni segja að Meniganotendur versli langtum minna í bókaverslunum en áður og þeir kjósi frekar að nota kreditkort í bókaverslun sinni.

Matvara
Á föstu verðlagi jukust matvörukaup Meniganotenda um 8% á árinu 2013 miðað við árið áður. Fyrstu átta mánuði í ár hefur aukningin verið 2%, miðað við sama tíma í fyrra, en um 11% sé miðað við sama tímabil árið 2012.

Raftæki
Á föstu verðlagi jókst verslun Meniganotenda í raftækjaverslunum á árinu 2013 um 10% samanborið við árið á undan. Fyrstu átta mánuði þessa árs hafa raftækjakaup dregist saman um 3% samanborið við sama tíma í fyrra.

Hvert fara krónurnar?
Fyrir hverja krónu sem Meniganotandi ver til kaupa á raftækjum notar hann átta til kaupa á matvöru.  Fyrir hverja krónu sem hann ver til bókakaupa notar hann 36 krónur til matvörukaupa. Þannig eru þessir markaðir afar mismunandi að stærð og erfitt að bera þá saman. En sé litið til þessara þriggja vöruflokka sem hafa verið í umræðunni  sést að á meðan matvöruverslun og raftækjakaup hafa aukist á undanförnum árum, hefur verslun í bókabúðum dregist verulega saman. Þá sést einnig greinilega sú tilhneyging að nota kreditkort í ríkari mæli í bókabúðum á meðan hlutfall debet- og kreditkorta við kaup a matvöru og raftækjum stendur nokkurn veginn í stað. Þetta er áhugaverð þróun, en hvort þetta sé verðugt innlegg í umræðuna um fjárlagafrumvarpið skal ósagt látið.



Hvað er fast verðlag?
Til þess að geta borið saman verðlag milli tímabila er tekið tillit til verðbólgu og áhrif hennar máð út.

Aukist til dæmis verslun um 4% á sama tíma og verðbólga er 4%, er ekki um raunverulega aukningu á verslun, þar sem keypt er sama magn af vöru. Varan er bara orðin dýrari. Á föstu verðlagi stendur verslun því í stað. Dragist verslun hins vegar saman um 12% á tilteknum tíma og sé verðbólga sama tímabils 4%, má segja að á föstu verðlagi sé samdráttur verslunar 16%.


Ofangreindar upplýsingar eru fengnar úr Menigahagkerfinu og unnar í samstarfi Meniga og Stofnunar um fjármálalæsi. Meniga hjálpar fólki að halda utan um fjármál heimilisins og eru notendur rúmlega 30.000 talsins. Aldrei er unnið með persónugreinanleg gögn í Meniga hagkerfinu. Þessi grein birtist á  www.meniga.is 19. september 2014.