Bók & sjónvarpsþættir
« Menigamoli | Main | Rannsóknir »
Friday
Sep202013

Stofnun um fjármálalæsi gefur alþingismönnum bókina Auði – hagfræði fyrir íslenska þjóð.

Í tilefni útgáfu glænýrrar bókar um hagfræði fyrir almenning sem ber heitið „Auður – hagfræði fyrir íslenska þjóð“, gaf Stofnun um fjármálalæsi öllum alþingismönnum eintak af bókinni. Það var Einar K. Guðfinnsson forseti alþingis sem veitti bókunum viðtöku fyrir hönd þingmanna. Útgáfufélagið Guðrún gefur bókina út fyrir tilstilli Stofnunar um fjármálalæsi.

„Það er afar mikilvægt að allir hafi skilning á því hvernig hagkerfið virkar,“ segir Breki Karlsson forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi. „Auður er hugsuð fyrir almenning og er grunnrit í hagfræði og efnahagsmálum. Bókin er á mannamáli og á erindi við alla þá sem vilja öðlast dýpri skilning á áhrifum hagkerfisins á eigin fjármál. Það er grundvöllur lýðræðisins að fólk kunni skil á lykilhugtökum hagfræðinnar og geti sett sig með gagnrýnum hætti inn í þjóðmálaumræðuna. Alþingismenn koma úr ólíkum áttum og eru með mismunandi bakgrunn og ekki er sjálfgefið að þeir séu víðlesnir í hagfræði. Þess vegna fannst okkur kjörið að færa alþingismönnum bókina. Góð umræða þarf að byggja á góðum grunni og Auður gagnast hverjum þeim sem vill kynna sér hagfræði og efnahagsmál - sama hvar í flokki þeir standa eða hvaða bakgrunn þeir hafa.“

Af þessu tilefni sagði Einar K. Guðfinnsson forseti alþingis: „Ég fagna þessu framtaki. Bókin kemur sér vel nú þegar fjárlagafrumvarpið er að koma fram. Ég hef haft aðstöðu til að glugga í bókina og hún er fróðleg, vel unnin og varpar ljósi á efnahagsumræðuna sem oft getur verið flókin. Hún er því kærkomin fyrir okkur þingmenn í þeirri umræðu sem mun fara fram og verður áberandi á næstunni. Fyrir hönd þingmanna, þakka ég þessa gjöf“

Auður - hagfræði fyrir íslenska þjóð - lýsir á aðgengilegan hátt helstu hugtökum í hagfræði, hvernig þau eru notuð og kemur jafnframt inn á sögulegt samhengi hagfræðikenninga. Bókin er ríkulega myndskreytt og kemur efninu skemmtilega frá sér.

Höfundurinn, Inga Lára Gylfadóttir, starfar sem flugmaður hjá Icelandair en samhliða starfi sínu þar lauk hún B.S. námi í Hagfræðideild HÍ vorið 2010. Fljótlega eftir að hún hóf hagfræðinámið áttaði hún sig á því hversu litla þekkingu hún hafði í raun til að taka ákvarðanir sem allir standa frammi fyrir einhvern tímann á lífsleiðinni, um íbúðakaup, fjárfestingar, sparnað og fleira. Stóra spurningin sem vaknaði hjá henni var „Af hverju var þetta ekki útskýrt fyrir mér fyrr?” og það varð það kveikjan að þessari bók.

Útgáfufélagið Guðrún var stofnað 1992 í Reykjavík. Guðrún gefur út bækur á 16 tungumálum. Bækur frá Guðrúnu eru til sölu í söfnum og bókabúðum í Norður-Evrópu.