Út er komin skýrsla um fjármálalæsi Íslendinga á vegum Stofnunar um fjármálalæsi og sálfræðisviðs viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. Skýrslan greinir frá nýrri rannsókn á þekkingu, viðhorfum og hegðun Íslendinga í fjármálum og eru þau borin saman við fyrri rannsóknir. Þetta er í þriðja sinn sem fjármálalæsi Íslendinga er rannsakað á þennan hátt, en spurningalistar voru lagðir fram í desember árin 2008, 2011 og 2014.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að fjármálalæsi Íslendinga hafi farið batnandi frá árinu 2011. En árið 2014 skoruðu þátttakendur hærra að meðaltali á öllum þáttum fjármálalæsis, þekkingu, viðhorfum og hegðun. Íslenskir þátttakendur komu einnig vel út ef miðað er við niðurstöður sambærilegra kannana í 14 OECD ríkjum árið 2012.
Þá var í fyrsta sinn haft samband við sömu þátttakendur og höfðu áður lent í úrtaki til að kanna hvort og hvernig fjármálalæsi hefur breyst á milli kannanna. Enginn munur reyndist vera á meðalskori milli ára hjá þátttakendunum sem tóku þátt árið 2011 og 2014, en aftur á móti svaraði nokkuð stór hluti þátttakenda einstaka spurningum ólíkt milli ára.
Meðal helstu niðurstaðna:
- Íslendingar skora hærra en áður í öllum þremur þáttum fjármálalæsis; þekkingu, viðhorfum og hegðun.
- Meðaltal réttra svara í þekkingahlutanum er 67% nú, en var 47% árið 2011 og 53% árið 2008.
- Nærri tvöfalt fleiri halda heimilisbókhald nú en 2011 (30% en var 16%), en heimilisbókhald er einmitt vísbending um góða stjórnun á eigin fjármálum.
- Jafnmargir höfðu tekið lán til að ná endum saman síðastliðna 12 mánuði og í síðustu rannsókn eða fjórðungur. Meðaltal OECD var hins vegar innan við fimmtungur árið 2012.
- Fjármálalæsi þeirra einstaklinga sem fylgst var með yfir tímabilið 2011 og 2014 breyttist ekki. Hins vegar er nokkuð stór hópur sem svarar á annan hátt nú en í fyrri rannsókn.
- Ekki er samband milli þekkingar og hegðunar í fjármálum.
- Nokkuð jákvætt samband er milli viðhorfa og hegðunar í fjármálum, eða r = 0,26, p < 0,01. Því jákvæðari viðhorf þátttakenda, þeim mun jákvæðari hegðun sýndu þeir
Að sögn Breka Karlssonar, forstöðumanns Stofnunar um fjármálalæsi, hefur verið ráðist í víðtækar aðgerðir til að efla fjármálalæsi Íslendinga á undanförnum árum: „Það er ákaflega ánægjulegt að sjá að Íslendingar taka framförum í fjármálalæsi, enda er það orðið snar þáttur í allri umræðu um læsi. Á undanförnum árum hefur verið ráðist í uppbyggingarstarf sem kemur meðal annars fram í því að fjármálalæsi er snar þáttur í nýrri námskrá grunn- og framhaldsskóla. Það er nauðsynlegt að halda áfram að hlúa að og efla fjármálalæsi, sérstaklega þegar kemur að því að breyta viðhorfum og þar með hegðun.“
Um rannsóknina
Könnunin náði til 802 Íslendinga á aldrinum 18 til 80 ára sem valdir voru með slembiúrtaki úr Þjóðskrá. Gagnaöflun fór fram í síma dagana 5. til 15. desember 2014. Gott samræmi er milli kynja og búsetu þátttakenda og mannfjöldatalna Hagstofunnar. Svarhlutfall er 52% sem er nokkuð lægra en árið 2011 þegar það var 65%. Spurningalistinn samanstóð af 60 spurningum sem reyndu á þrjá þætti fjármálalæsis, þ.e. almenna þekkingu á fjármálum, fjármálahegðun og viðhorf til fjármála. Þá sneru 10 spurningar að bakgrunni þátttakenda.
Skýrslan er unnin af Stofnun um fjármálalæsi og sálfræðisviði viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík og er styrkt af Almenna lífeyrissjóðnum, Arion banka og fjármálaráðuneytinu.