Bók & sjónvarpsþættir
Wednesday
Feb072018

Áskorun um þátttöku í fjármálalæsishluta PISA

Stofnun um fjármálalæsi, Neytendasamtökin, Heimili og skóli, Samtök fjármálafyrirtækja, Umboðsmaður skuldara og Landssamtök lífeyrissjóða afhenti í dag menntamálaráðuneytinu eftirfarandi áskorun.

Reykjavík 7. febrúar 2018
Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra mennta- og menningarmála

Áskorun:

Stofnun um fjármálalæsi, Neytendasamtökin, Heimili og skóli, Samtök fjármálafyrirtækja, Umboðsmaður skuldara og Landssamtök lífeyrissjóða skora á menntamálaráðherra að taka þátt í fjármálalæsishluta PISA könnunarinnar árið 2021. Næstkomandi mánudag, 12.febrúar, rennur út frestur stjórnvalda til að lýsa yfir áhuga á þátttöku í fjármálalæsishlutanum en Íslendingar hafa hingað til kosið að taka ekki þátt í þessum hluta hennar. Með þátttöku gefst einstakt tækifæri til að meta stöðu íslenskra ungmenna og sjá hvar helstu tækifæri til eflingar fjármálalæsis liggja. Með því skapast grundvöllur fyrir mun markvissari fjármálalæsiskennslu hérlendis til langs tíma. 

Fjármálalæsi er grundvallarfærni sem hægt er að læra. Skortur á fjármálalæsi hefur ekki einungis neikvæð áhrif á efnahag einstaklinga, heldur einnig á almenn lífsgæði. Gott fjármálalæsi skilar sér í betri ákvarðanatöku einstaklinga í fjármálum, stuðlar að stöðugleika og aukinni hagsæld. Mikilvægi fjármálalæsis er óumdeilt og við skorum á stjórnvöld að nýta það tækifæri sem felst í þátttöku fjármálalæsishluta PISA könnunarinnar árið 2021.

Stofnun um fjármálalæsi

Neytendasamtökin

Heimili og skóli

Samtök fjármálafyrirtækja

Umboðsmaður skuldara

Landssamtök lífeyrissjóða

Monday
Feb292016

Ferð til fjár fær tilnefningu til Edduverðlauna

Sjónvarpsþættirnir Ferð til fjár sem Stofnun um fjármálalæsi framleiddi ásamt Sagafilm, voru tilnefndir til Edduverðlauna 2016 í flokki lífstílsþátta. Það kætti hjörtu okkar og kitlaði hégómann, en gefur líka slagkraft í hið mikilvæga verkefni sem efling fjármálalæsis er. Takk fyrir tilnefninguna!
Vonandi fáum við tækifæri til að gera fleiri Ferðir til fjár. Það er sannarlega af nógu að taka.
Tuesday
Jan192016

Íslendingar taka framförum í fjármálalæsi

Út er komin skýrsla um fjármálalæsi Íslendinga á vegum Stofnunar um fjármálalæsi og sálfræðisviðs viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. Skýrslan greinir frá nýrri rannsókn á þekkingu, viðhorfum og hegðun Íslendinga í fjármálum og eru þau borin saman við fyrri rannsóknir. Þetta er í þriðja sinn sem fjármálalæsi Íslendinga er rannsakað á þennan hátt, en spurningalistar voru lagðir fram í desember árin 2008, 2011 og 2014.

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að fjármálalæsi Íslendinga hafi farið batnandi frá árinu 2011. En árið 2014 skoruðu þátttakendur hærra að meðaltali á öllum þáttum fjármálalæsis, þekkingu, viðhorfum og hegðun. Íslenskir þátttakendur komu einnig vel út ef miðað er við niðurstöður sambærilegra kannana í 14 OECD ríkjum árið 2012.

Þá var í fyrsta sinn haft samband við sömu þátttakendur og höfðu áður lent í úrtaki til að kanna hvort og hvernig fjármálalæsi hefur breyst á milli kannanna. Enginn munur reyndist vera á meðalskori milli ára hjá þátttakendunum sem tóku þátt árið 2011 og 2014, en aftur á móti svaraði nokkuð stór hluti þátttakenda einstaka spurningum ólíkt milli ára.

Meðal helstu niðurstaðna:

- Íslendingar skora hærra en áður í öllum þremur þáttum fjármálalæsis; þekkingu, viðhorfum og hegðun.

- Meðaltal réttra svara í þekkingahlutanum er 67% nú, en var 47% árið 2011 og 53% árið 2008.

- Nærri tvöfalt fleiri halda heimilisbókhald nú en 2011 (30% en var 16%), en heimilisbókhald er einmitt vísbending um góða stjórnun á eigin fjármálum.

- Jafnmargir höfðu tekið lán til að ná endum saman síðastliðna 12 mánuði og í síðustu rannsókn eða fjórðungur. Meðaltal OECD var hins vegar innan við fimmtungur árið 2012.

- Fjármálalæsi þeirra einstaklinga sem fylgst var með yfir tímabilið 2011 og 2014 breyttist ekki. Hins vegar er nokkuð stór hópur sem svarar á annan hátt nú en í fyrri rannsókn.

- Ekki er samband milli þekkingar og hegðunar í fjármálum.

- Nokkuð jákvætt samband er milli viðhorfa og hegðunar í fjármálum, eða r = 0,26, p < 0,01.  Því jákvæðari viðhorf þátttakenda, þeim mun jákvæðari hegðun sýndu þeir

Að sögn Breka Karlssonar, forstöðumanns Stofnunar um fjármálalæsi, hefur verið ráðist í víðtækar aðgerðir til að efla fjármálalæsi Íslendinga á undanförnum árum: „Það er ákaflega ánægjulegt að sjá að Íslendingar taka framförum í fjármálalæsi, enda er það orðið snar þáttur í allri umræðu um læsi. Á undanförnum árum hefur verið ráðist í uppbyggingarstarf sem kemur meðal annars fram í því að fjármálalæsi er snar þáttur í nýrri námskrá grunn- og framhaldsskóla. Það er nauðsynlegt að halda áfram að hlúa að og efla fjármálalæsi, sérstaklega þegar kemur að því að breyta viðhorfum og þar með hegðun.“

Um rannsóknina

Könnunin náði til 802 Íslendinga á aldrinum 18 til 80 ára sem valdir voru með slembiúrtaki úr Þjóðskrá. Gagnaöflun fór fram í síma dagana 5. til 15. desember 2014. Gott samræmi er milli kynja og búsetu þátttakenda og mannfjöldatalna Hagstofunnar. Svarhlutfall er 52% sem er nokkuð lægra en árið 2011 þegar það var 65%. Spurningalistinn samanstóð af 60 spurningum sem reyndu á þrjá þætti fjármálalæsis, þ.e. almenna þekkingu á fjármálum, fjármálahegðun og viðhorf til fjármála. Þá sneru 10 spurningar að bakgrunni þátttakenda.

Skýrslan er unnin af Stofnun um fjármálalæsi og sálfræðisviði viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík og er styrkt af Almenna lífeyrissjóðnum, Arion banka og fjármálaráðuneytinu.

Thursday
Feb122015

Ferð til fjár

Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og fjalla ítarlega um heimilisfjármál í tengslum við sjónvarpsþættina Ferð til fjár, sem sýndir eru á RÚV. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! 

Fylgstu með hér

 

Friday
Sep262014

Útgjöld eftir tekjufjórðungum

Eftirfarandi grein birtist í Kjarnanum í örlítið breyttri mynd 24. september 2014

Í kjölfar þess að fjárlagafrumvarpið var lagt fram hafa spunnist umræður um verðbreytingar og áhrif þeirra á mismunandi tekjuhópa. Til að stuðla að upplýstri umræðu er tilvalið að varpa ljósi á hvernig Meniganotendur verja tekjum sínum eftir tekjufjórðungum.

Þegar við lítum til meðaltalsráðstöfunartekna* þeirra sést að þær eru kr. 395.944 á mánuði sem er um 10% hærra en meðalheildarlaun 2013 samkvæmt Hagstofunni**.  (sjá töflu 1)

Meðalráðstöfunartekjur lægsta fjórðungsins eru kr. 170.792 á mánuði, þess næstlægsta eru kr. 292.537,  þess næsthæsta fjórðungs eru kr. 407.076 og meðalráðstöfunartekjur tekjuhæsta fjórðungsins eru kr. 699.782 á mánuði. (sjá töflu 1)

Tekjulægsti fjórðungurinn ver tæpum 24% tekna sinna í matvöruverslunum á meðan sá tekjuhæsti ver tæpum 11% tekna sinna þar. Þá ver tekjulægsti fjórðungurinn 11% í eldsneyti og sá tekjuhæsti tæpum 6%. Í töflu 2 má sjá hlutfall tekna sem varið er til ýmissa nota eftir tekjufjórðungum. (sjá töflu2)

Tekjuhæsti hópurinn ver að jafnaði tæpum kr 204.000 til kaupa í þessum tíu flokkum á meðan sá tekjulægsti ver tæpum kr.114.000. Það segir þó ekki alla söguna, því þegar tekjulægsti hópurinn hefur greitt þessa neyslu sína á hann tæpar kr. 57.000 aflögu til annarra nota á meðan sá tekjuhæsti ræður yfir rúmum kr. 496.000. (sjá töflur 1 og 3)

 

Tafla 1 Fjöldi, meðalráðstöfunartekjur og meðalneysla  tekjufjórðunga

 

Tafla 2 Hlutfall tekna varið í verslun eftir tekjufjórðungum

 

Tafla 3 Meðalverslun eftir flokkum í krónum

 

Súlurit

Smelltu hér til að sjá súlurit

 

Um úrtakið:

Um 40.000 Íslendingar eru skráðir í Meniga. Úrtakið nær til 12.683 Meniganotenda sem voru valdir með áreiðanleikaprófunum færsluupplýsinga. Samtölur úrtaksins hafa verið bornar saman við opinberar tölur um þróun neyslu. Úrtakið telst því hæft til greiningar á tekjum og útgjaldahegðun. Notast er við gögn sem ná yfir allt árið 2013. Meðaltalsútreikningar eru miðaðir við einstaklinga en ekki fjölskyldur.

*Ráðstöfunartekjur eru laun, barnabætur, meðlög, styrkir, fæðingarorlofsgreiðslur, lífeyrisgreiðslur, húsaleigubætur og námslán, eftir skatta og gjöld.

**Samkvæmt Hagstofunni voru heildarlaun á Íslandi að meðaltali 526.000 á mánuði  árið 2013, eða um 358.000 eftir skatta. Meðalráðstöfunartekjur Meniganotenda eru um 10% hærri þar sem fleiri tekjuþættir eru teknir með í reikninginn.

---

Ofangreindar upplýsingar eru fengnar úr Menigahagkerfinu og unnar í samstarfi Stofnunar um fjármálalæsi og Meniga. Meniga hjálpar fólki að halda utan um fjármál heimilisins og er heildarfjöldi notenda um 40.000. Aldrei er unnið með persónugreinanleg gögn í Meniga hagkerfinu. Nánari upplýsingar má finna á www.meniga.is.