Bók & sjónvarpsþættir
Friday
Sep202013

Stofnun um fjármálalæsi gefur alþingismönnum bókina Auði – hagfræði fyrir íslenska þjóð.

Í tilefni útgáfu glænýrrar bókar um hagfræði fyrir almenning sem ber heitið „Auður – hagfræði fyrir íslenska þjóð“, gaf Stofnun um fjármálalæsi öllum alþingismönnum eintak af bókinni. Það var Einar K. Guðfinnsson forseti alþingis sem veitti bókunum viðtöku fyrir hönd þingmanna. Útgáfufélagið Guðrún gefur bókina út fyrir tilstilli Stofnunar um fjármálalæsi.

„Það er afar mikilvægt að allir hafi skilning á því hvernig hagkerfið virkar,“ segir Breki Karlsson forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi. „Auður er hugsuð fyrir almenning og er grunnrit í hagfræði og efnahagsmálum. Bókin er á mannamáli og á erindi við alla þá sem vilja öðlast dýpri skilning á áhrifum hagkerfisins á eigin fjármál. Það er grundvöllur lýðræðisins að fólk kunni skil á lykilhugtökum hagfræðinnar og geti sett sig með gagnrýnum hætti inn í þjóðmálaumræðuna. Alþingismenn koma úr ólíkum áttum og eru með mismunandi bakgrunn og ekki er sjálfgefið að þeir séu víðlesnir í hagfræði. Þess vegna fannst okkur kjörið að færa alþingismönnum bókina. Góð umræða þarf að byggja á góðum grunni og Auður gagnast hverjum þeim sem vill kynna sér hagfræði og efnahagsmál - sama hvar í flokki þeir standa eða hvaða bakgrunn þeir hafa.“

Af þessu tilefni sagði Einar K. Guðfinnsson forseti alþingis: „Ég fagna þessu framtaki. Bókin kemur sér vel nú þegar fjárlagafrumvarpið er að koma fram. Ég hef haft aðstöðu til að glugga í bókina og hún er fróðleg, vel unnin og varpar ljósi á efnahagsumræðuna sem oft getur verið flókin. Hún er því kærkomin fyrir okkur þingmenn í þeirri umræðu sem mun fara fram og verður áberandi á næstunni. Fyrir hönd þingmanna, þakka ég þessa gjöf“

Auður - hagfræði fyrir íslenska þjóð - lýsir á aðgengilegan hátt helstu hugtökum í hagfræði, hvernig þau eru notuð og kemur jafnframt inn á sögulegt samhengi hagfræðikenninga. Bókin er ríkulega myndskreytt og kemur efninu skemmtilega frá sér.

Höfundurinn, Inga Lára Gylfadóttir, starfar sem flugmaður hjá Icelandair en samhliða starfi sínu þar lauk hún B.S. námi í Hagfræðideild HÍ vorið 2010. Fljótlega eftir að hún hóf hagfræðinámið áttaði hún sig á því hversu litla þekkingu hún hafði í raun til að taka ákvarðanir sem allir standa frammi fyrir einhvern tímann á lífsleiðinni, um íbúðakaup, fjárfestingar, sparnað og fleira. Stóra spurningin sem vaknaði hjá henni var „Af hverju var þetta ekki útskýrt fyrir mér fyrr?” og það varð það kveikjan að þessari bók.

Útgáfufélagið Guðrún var stofnað 1992 í Reykjavík. Guðrún gefur út bækur á 16 tungumálum. Bækur frá Guðrúnu eru til sölu í söfnum og bókabúðum í Norður-Evrópu. 

Wednesday
Sep182013

Rannsóknir

Stofnun um fjármálalæsi rannsakar nú áhrif fjármálalæsiskennslu á fjármálalæsi nemenda í 10 skólum á Íslandi. Gagnaöflun fer fram í tveimur lotum, fyrir og eftir kennslu, og síðan er kannað hvort og hvaða áhrif fjármálalæsiskennslan hefur. Niðurstaðna er að vænta um mitt ár 2014.

Stofnununin tók nýlega þátt í þróun og hönnun rannsóknar á fjármálalæsi í Rússlandi fyrir rannsóknamiðstöðina Demoscop Russia, en þar er markmiðið að kanna fjármálalæsi Rússa. Líklega er þetta ein stærsta og viðamesta rannsókn í fjármálaæsi sem gerð hefur verið og er frumniðurstaðna úr þeirri rannsókn að vænta haustið 2014.

Þá tók stofnunin þátt í ráðstefnu samtakanna Child and Youth Finance International í Istanbúl í júní og kynnti þar innlent og erlent rannsóknastarf sitt, en stofnunin á sæti í rannsóknaráði samtakanna.

Í júlí var stofnuninni boðið til Næróbí í Kenía, þar sem stofnunin kynnti rannsókn sína á löggjöf er gildir hér á landi um ófjárráða börn og verklagsreglur sem fyrirtæki og stofnanir hafa sett sér. Verkefnið var hluti af samstarfi stofnunarinnar við Child and Youth Finance International og Stichting Child Savings International.

Wednesday
Sep052012

Aflatún á Íslandi

Stofnun um fjármálalæsi hefur opnað nýtt vefsvæði www.aflatun.is samhliða því að Aflatún námsefnið hefur verið tekið til tilraunakennslu í Grunnskóla Bolungarvíkur. Aflatún er námsefni fyrir börn og unglinga í fjármálalæsi, samfélagsábyrgð og nýsköpun, og nær til 1,3 milljón barna í 94 löndum.

Ennfremur stóð Stofnun um fjármálalæsi fyrir fyrsta námskeiði fyrir tilvonandi kennara og leiðbeinendur þann 6. og 7. september 2012. Leiðbeinendur voru Paul Moclair verkefnastjóri Afla-Academy og Breki Karlsson forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi.

Haldið verður annað námskeið haustið 2013. Námskeiðið er grunnskólakennurum og leiðbeinendum að kostnaðarlausu.

Frekari upplýsingar er að finna á www.aflatun.is

Tuesday
May152012

Ráðstefna OECD um fjármálalæsi

Stofnun um fjármálalæsi tók þátt í ráðstefnu OECD um fjármálalæsi í Madrid dagana 7.-11 maí 2012. Breki Karlsson, forstöðumaður tók þátt í sérstakri vinnustofu um fjármálalæsisþátt PISA rannsóknarinnar, þar sem þátttakendur lögðu mat á fyrstu umferð PISA rannsóknarinnar í fjármálalæsi sem gerð var í 19 löndum (þó ekki á Íslandi). Frekari upplýsingar um ráðstefnuna má finna hér.

Breki tók á dögunum einnig þátt í árlegri ráðstefnu Child&Youth Finance International (CYFI), þar sem hann kynnti niðurstöður rannsóknar á fjármálalæsi Íslendinga. Ráðstefnan var haldin í Amsterdam dagana 2. til 4. apríl 2012. Stofnun um fjármálalæsi er einn stofnaðila CYFI. Frekari upplýsingar um samtökin og ráðstefnuna má finna hér.

Saturday
Apr282012

Fjármálalæsi Íslendinga hrakar

Fjármálalæsi Íslendinga hrakar samkvæmt nýrri rannsókn Stofnunar um fjármálalæsi, sem unnin var í samstarfi við sálfræðisvið viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. Þekking, viðhorf og hegðun Íslendinga í fjármálum var rannsökuð og borin saman við rannsókn Stofnunar um fjármálalæsi frá 2008.

Meðal helstu niðurstaðna:
- Þekkingu hrakar milli ára, 53% rétt svör árið 2008 en 47% árið 2011.
- Færri halda heimilisbókhald nú en áður, en heimilisbókhald er einmitt vísbending um góða stjórnun á eigin fjármálum.
- Tuttugu prósent færri nýta yfirdrátt og hann er að meðaltali þriðjungi lægri.
- Fimmtánoghálft prósent ná ekki endum saman þriðja hvern mánuð eða oftar.
- Jafnmargir hafa miklar áhyggjur af fjármálum sínum og áður.
- Tæplega helmingur þátttakenda vill ekki taka áhættu þegar kemur að sparnaði.

Frekari upplýsingar um rannsóknina má finna hér.